top of page

FOLLOW ME:

  • Facebook Clean Grey
  • Twitter Clean Grey
  • Instagram Clean Grey

RECENT POSTS: 

SEARCH BY TAGS: 

No tags yet.

The burden of 'ideal' beauty

Ein ákveðin minning situr alltaf föst í hausnum á mér. Hún er frá því ég var svona 7 eða 8 ára gömul. Frændi minn var að passa mig og systkini mín og það var kveikt á sjónvarpinu niðrí stofu. Ungfrú Ísland var í gangi og einhverra hluta vegna ákvað ég að sitja ein og horfa aðeins á hana. Ég var dolfallin yfir fegurðinni og glamúrnum sem blasti við á skjánum og eftir að einhverskonar bikiní tískusýning hafði átt sér stað fór ég upp í herbergið mitt og klæddi mig úr fötunum og stóð fyrir framan spegilinn. Ég horfði á mig í nærfötunum og byrjaði svo að gráta af því mér fannst ég með svo feitan maga. 7 eða 8 ára gömul!

Frá því ég var mjög lítil, varla byrjuð í grunnskóla, hef ég hugsað mjög mikið um að vekja athygli hjá fólki. Ég vildi alltaf einhverra hluta vegna vera stelpan sem aðrir töluðu um og ég gerði mikið í því að vera djörf og klæða mig á áberandi hátt, mömmu til mikillar óánægju, sérstaklega á unglingárunum mínum þar sem skólinn hringdi oft í hana og sagði henni að það væri óásættanlegt að 14 ára stelpa væri í flegnum magabol í skólanum. Mér fannst fátt skemmtilegra en þegar ókunnugt fólk vissi hver ég væri og þegar fólk hrósaði mér fyrir að vera sæt eða flott eða eitthvað slíkt. Mér fannst mikilvægi mitt liggja í útlitinu, það væri það mikilvægasta sem ég gæti átt. Ég veit ekki nákvæmlega afhverju það var, ég var ekkert alin upp við þær hugmyndir en ég var hinsvegar alltaf hrikalega áhrifagjörn, meðtækileg og hvatvís og ég held mér sjálfri hafi svolítið fundist að samfélagið væri óbeint að segja mér að í útlitinu lægi tilgangur lífsins. Það var svo seinna meir að þessi þráhyggja mín um útlit fór að breytast í hættulegan sjúkdóm.

Sumir dagar marka tímamót. Ég er svo lengi búin að vilja skrifa grein um það sem hefur hrjáð mig og svo ótrúlega marga aðra en ég hef aldrei treyst mér til þess. Skömmin er svo mikil sem og stoltið sem maður heldur að sé í húfi. En ég ætla að bera abyrgð á minni eigin hamingju og ég ætla að horfast í augu við hræðsluna mína. Bæði til að hjálpa mér sjálfri og öðrum sem þurfa kannski á kjarki annarra að halda, því ég veit svo sannarlega að ég hef oft og mörgum sinnum verið í þeim sporum.

Vandamál mitt með mat hófst þegar ég var 14 að verða 15 ára. Ég hafði ótrúlegan áhuga á tísku og sá ekki sólina fyrir hátískufyrirsætum. Ég vildi vera eins flott og þær og með því hélt ég að ég gæti áorkað hverju sem er í lífinu. Þannig byrjaði ég í rauninni að svelta mig. Ég hætti að borða allt nammi, allt gos, kökur, brauð og fleira og tók með mér tvo extra tyggjópakka í skólann sem ég japlaði á yfir daginn. Ég æfði ballett og jazzballet 6 daga vikunnar og var því gjarnan á æfingum á kvöldin. Svo þegar ég kom heim beið mín matur á eldhúsborðinu, þá setti ég mat á diskinn og dreifði honum um allt, henti svo matnum og þá leit út fyrir að matur hefði verið borðaður af disknum. Þegar ég var í bleiku balletsokkabuxunum og svarta ballettbolnum gat ég ekki horft á mig í speglinum ef ég var búin að borða eitthvað, mér fannst ég þá fáránleg og í fullkominni einlægni feit. Þennan vetur setti ég rosalega mikla pressu á mig, stóð ég mig ótrúlega vel í öllu sem ég tók mér fyrir hendur, fékk 9,6 í meðaleinkunn úr samræmdu prófunum og var virkilega ánægð yfir þessum vetri. Helst þakkaði ég þó mataræðinu og frábæru tölunum sem vigtin sýndi mér á hverjum degi fyrir það. Ég þakka guði fyrir yndislegu skólahjúkrunarkonuna sem bað mig alltaf að koma einu sinni í viku í spjall til sín. Ég áttaði mig í fyrstu ekkert á því afhverju hún vildi það en mér fannst alltaf rosalega gott að tala við hana. Þegar fór að líða á veturinn fékk hún mig smátt og smátt til að átta mig á því hvað ég ætti í óheilbrigðu sambandi við mat og þegar ég byrjaði svo í menntaskóla fékk ég nóg af þessu og byrjaði kynni mín við mat uppá nýtt. Ég hætti að vera með svona mikla þráhyggju yfir honum og hægt og rólega hætti ég bara alveg að hugsa um þetta og þannig varð það næstu 4 árin.

Það var ekki fyrr en ég var tvítug og stóð á ákveðnum tímamótum í lífinu að hlutirnir fóru að breytast til hins verra. Foreldrar mínir skildu og út frá því eins og í flestum skilnuðum urðu mikil átök og reiði, og fjölskyldueiningin sem maður hafði alist upp við splundraðist algjörlega. Ég djammaði mjög mikið, tók mjög slæmar ákvarðanir og hætti með og særði kærastann minn sem var ástin í lífi mínu. Allt í einu fannst mér ég ekki hafa tök á neinu í lífinu, eins og ég hefði ekkert um það að segja hvernig lífið mitt yrði og mér fór að líða mjög illa og út frá því missa matarlystina. Ég grenntist frekar hratt á stuttum tíma og þá byrjaði þessi vellíðunartilfinning að hellast yfir mig, þessi fíkn sem fylgir því að grennast. Mér fannst ég loksins hafa tök á einhverju, að ég hefði tök á mínum eigin líkama. Þá fór allt að snúast um að vera mjó og vá, það sem ég elskaði að heyra aðra tala við mig um hvað ég væri orðin grönn, mér fannst eins og það væri að hrósa mér fyrir að hafa áorkað því að hafa náð þessu líkamlega "formi" sem ég var í þegar fólk var í raun að lýsa áhyggjum sínum yfir mér. Lífið mitt einkenndist af búlímíu og ég átti það til að kasta upp allt að 5 sinnum á dag. Ég var alltaf með tannbursta í veskinu sem ég notaði til að hjálpa mér og það skipti ekki máli hvar ég var, ég gat alltaf hugsað fyrir því hvar ég gæti næst kastað upp.

Hægt og bítandi fór svo skömmin að gera vart við sig. Hvað var eiginlega að mér? Ég átti ekkert erfitt, ég hafði átt mjög gott líf miðað við svo marga aðra. Og svo eru þróunarríki í heiminum að þjást af vannæringu á meðan ég treð í mig dominos pizzu og kasta henni svo allri upp heima hjá vinkonu minni. Samt gat ég ekki hætt, ég gat ekki gefið eftir. Það kom aldrei fyrir að mér fannst ég orðin of grönn og mér fannst oft vandræðalegt að ég væri annað hvort sveltandi mig eða gubbandi og væri samt ekki grennri en þetta. Mér fannst ég heldur í rauninni ekki eiga skilið að vera mjó afþví ég gat ekki bara sleppt því að borða heldur þurfti ég að taka átköst og svo 5 mínútum seinna þurfti allur maturinn að enda í klósettinu. Og stelpur voru að segja við mig hvað það væri óþolandi ósanngjarnt hvernig ég gæti verið svona mjó en samt alltaf borðandi pizzu og nammi sem lét mig fá ótrúlegt samviskubit. En maður verður svolítið að vera sjálfstæður og bera ábyrgð á sinni hamingju. Maður getur alltaf ekki bent á aðra og kennt þeim um eigin líðan, ég get alls ekki kennt leikkonum og fyrirsætum sem ég leit og lít upp til um mína eigin líðan. Við eigum það til að gera alltof mikið úr fyrirmyndum og setjum of mikla ábyrgð á þær í staðinn fyrir að treysta á okkur sjálf. Það er auðvelt að hakka einhvern annan í sig og dæma í stað þess að líta í eigin barm og vinna í sínum eigin vandamálum. Útlitsdýrkun er svo sannarlega vandamál í nútímasamfélagi og það er eitthvað sem verður að laga en ég held að leiðin að einhverskonar lausn liggi í sjálfseflingu og styrkingu á okkur sjálfum en ekki í því að benda á einhvern annan. Hvað mig varðar er ég loksins búin að átta mig á því að þetta er í alvörunni sjúkdómur. Heilinn minn hann er ekki alveg að virka rétt þegar kemur að mat og ég nenni ekki lengur að skammast mín eða að líða endalaust illa með mig sjálfa og hvernig manneskja ég er. Matur stjórnar ekki lengur öllu lífinu mínu. Ég veit að það verður ekki auðvelt að sigrast fullkomlega á þessu en maður verður að byrja einhversstaðar, vera bjartsýnn og gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að sættast við sjálfan sig og láta lífið einkennast af hamingju. Lifum, elskum og njótum!


bottom of page